Geirlaug Jóhannsdóttir, fyrsta sæti

„Ég býð mig fram til að leiða áfram lista Samfylkingarinnar í Borgarbyggð næstu 4 árin. Ég hef búið í Borgarnesi síðastliðin 10 ár ásamt fjölskyldu minni og við viljum hvergi annars staðar ala upp börnin okkar. Það sem knýr mig áfram er fyrst og fremst löngun til að búa í samfélagi þar sem forgangsraðað er í þágu barna og þeirra sem mest eru þurfandi.“

Þátttaka í sveitarstjórnarstörfum er ein leið til að hafa áhrif á samfélagið sem við búum í. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að kappkosta að byggja upp fjölskylduvænt samfélag með framsæknum skólum, öflugu félags- og tómstundastarfi og metnaðarfullri velferðarþjónustu. Rekstur sveitarfélagsins þarf að vera agaður og nauðsynlegt er að áætlanagerð sé vönduð og stofnanir séu reknar innan fjárheimilda.

Magnús Smári Snorrason, annað sæti

„Það er áhugi minn á samfélaginu almennt sem gerir það að verkum að ég vil taka þátt í sveitarstjórnarmálum í Borgarbyggð. Á þeim tæpum 10 árum sem ég hef búið í Borgarbyggð hef ég kynnst því hversu ótrúlega margbreytilegt samfélag þetta er. Ég vill leggja mitt af mörkum til þess að auka velferð í Borgarbyggð í víðasta skilningi þess orðs. Velferðin felst ekki síst í því að bjóða upp á mannvænlegt umhverfi og gæða þjónustu þar sem allir fá notið þess sem samfélagið býður upp á.“

Björk Jóhannsdóttir, þriðja sæti

Ég býð mig fram vegna þess að ég er alin upp við þá hugmynd að samfélagið eigi að byggja á þátttöku sem flestra, til að það geti talist lýðræðislegt. Þess vegna tel ég ákaflega mikilvægt að fólk fái innsýn í verklag og vinnu við málefni sveitarfélagsins. Þetta þarf allt að vera aðgengilegt á heimasíðu. Það er lagaleg skylda sveitarfélagsins að upplýsa og aðstoða íbúa sína. Þannig verður fólk meðvitaðra um mál sem það varða og tortryggni minnkar. Verkferlar þurfa að vera skýrir og aðgengilegir öllum á vef sveitarfélagsins. Þessum verkferlum þarf að fylgja í reynd og vinnulag við ákvarðanatöku þarf að vera gegnsætt. Einnig er það mér hugleikið að fólk fái að hafa áhrif á ákvarðanatöku í sérstökum málum með kosningu á vefnum.

Unnsteinn Elíasson, fjórða sæti

Vegna vinnu minnar hef ég ferðast vítt og breitt um sveitarfélagið og hitt gott og skemmtilegt fólk. Mig langar að reyna að láta gott af mér leiða fyrir þetta fólk og reyna að bæta það góða samfélag sem við eigum, enn frekar. Ég veit fátt skemmtilegra en að aka um okkar fallega sveitarfélag að sumarlagi eftir að sláttur er hafinn og allt iðar af lífi, þá finn ég hvað sterkast fyrir ást á sveitinni minni.

Við viljum byrja á þessu:

 • Frístundakort að upphæð 25.000 fyrir hvert barn á grunnskólaaldri til að lækka kostnað fjölskyldna við þátttöku barna og unglinga í íþrótta- og tómstundastarfi.

 • Auka framboð hagkvæms leiguhúsnæðis með því að leiða saman aðila sem hafa áhuga á að koma að því að byggja upp langtíma leiguhúsnæði.

 • Fegra umhverfi og fjölga leiksvæðum í sveitarfélaginu.

 • Setja á stofn íbúaráð á tilteknum svæðum og hverfum í Borgarbyggð.

 • Efla almenningssamgöngur með aukinni samþættingu skóla- og tómstundaaksturs.

 • Auka samráð við íbúa og upplýsingamiðlun um málefni sveitarfélagsins og fjölga tækifærum þeirra til að koma skoðunum sínum á framfæri, m.a. með notkun samfélagsmiðla og virkari heimasíðu þar sem fundargögn eru birt sem eru framlögð í nefndum.

 

Við viljum vinna að þessum verkefnum á næstu árum í náinni samvinnu við íbúa og starfsfólk stofnana:

 • Gera áætlun um plöntun trjáa og skrautrunna á þéttbýlisstöðum til að mynda skjól og fegra umhverfi.

 • Bæta umferðaröryggi og efna til íbúakosningar um legu Þjóðvegar 1 í gegnum Borgarnes.

 • Skoða kosti og galla þess að samþætta leikskóla- og grunnskóla á Hvanneyri.

 • Bæta aðgengi fatlaðs fólks að stofnunum í eigu sveitarfélagsins og bæta hjólastólaaðgengi.

 • Upplýsa íbúa betur með aukinni fræðslu um flokkun á úrgangi og endurvinnslu.

 • Efla starfsemi Tónlistarskóla Borgarfjarðar enn frekar þannig að boðið verði upp á nám í fleiri listgreinum.

 • Efla Hjálmaklett sem menningarhús og koma upp leiksvæði fyrir börn og aðstöðu fyrir skapandi starf.

 • Haldnir verði reglulegir samráðsfundir með íbúum víðsvegar í sveitarfélaginu.

 • Skoða möguleika á að setja þak á þjónustugjöld sveitarfélagsins.

 • Að mikilvægar upplýsingar fyrir íbúa séu aðgengilegar á fleiri tungumálum en íslensku.

 • Tryggja öldruðum fjölbreytta valkosti til búsetu.

 • Ráða mannauðsstjóra sem ynni með öllum stofnunum sveitarfélagsins.

 

Stefnuskráin í heild sinni